Karellen
news

Þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun í máli og læsi

22. 06. 2023

Leikskólar í Eyjum innleiddu í vetur þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun-mál og læsi. Haldin var uppskeruhátíð til að fagna afrakstri vetrarins.

Vestmannaeyjabær og Menntamálastofnun skrifuðu þann 22. ágúst sl. undir samstarfssamning um innleiðingu þróunarverkefnisins Snemmtæk íhlutun-mál og læsi. Innleiðing verkefnisins í leikskóla sveitarfélagsins stóð yfir allan sl. vetur og unnu kennarar, leiðbeinendur og stjórnendur leikskólanna ötullega að henni undir leiðsögn Halldóru G. Helgadóttur, verkefnastýru og Ásthildi Bj. Snorradóttur sem þróaði verkefnið. Verkefnið er með sérstaka áherslu á málþroska barna og í innleiðingunni fólst, m.a. að skoða hvað skólarnir væru að gera vel og hvað væri hægt að gera betur til að styðja sem best við börn þegar kemur að markvissri snemmtækri íhlutun í málþroska. Hver leikskóli vann handbók sem myndar ramma og leiðbeiningar um allt það starf sem lýtur að snemmtækri íhlutun í málþroska.

Þriðjudaginn 20. júní sl. var innleiðingu verkefnisins formlega lokið og uppskeruhátíð haldin í Visku.

Afrakstur vetrarins og áframhaldandi vinna í kjölfar innleiðingar kemur til með að styrkja öll börn þar sem mælingar, þjálfun og eftirfylgni verða markvissari. Þá styrkist starfsfólk í starfi þar sem markmið, verkferlar og efniðviður hvers leikskóla er skýrari. Árangurinn sem af verkefninu hlýst verður ekki bundinn við leikskólana, hann mun skila sér upp allt skólakerfið og lengra þegar fram líða stundir.

Handbók Víkurinnar um Snemmtæka íhlutun í máli og læsi má finna undir flipanum skólastarfið, skólanámsskrá.

© 2016 - 2024 Karellen